Hugmyndafræði leikskólans

Við bjóðum þig velkominn í leikskólann okkar Hraunborg. Hlutverk leikskólans er að búa börn sem best undir það líf sem bíður þeirra í samfélagi sem tekur örum breytingum, samfélagi aukinnar tækni og framfara.

Einkunnarorð Hraunborgar eru: „Leikum og lærum".

Markmið Hraunborgar er: að hér starfi glaðir, virkir, ábyrgir, skapandi og gagnrýnir einstaklingar sem beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

„Börn eru eins og svampar. Þau sjúga í sig alla orku manns og geta gert út af við fólk, en ef maður þrýstir þeim fast að sér kemur það allt til baka" Abraham Lincoln

Hugmyndafræðin í Hraunborg byggist á lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla og stefnu Menntasviðs Reykjavíkur. Við störfum í anda heildtækrar skólastefnu með því að koma til móts við þarfir einstaklingsins og gefa honum tækifæri til að vaxa og dafna á jafningjagrundvelli. Auk þessa tökum við mið af kenningum eftirtalinna fræðimanna:

John Dewey taldi að einstaklingurinn lærði með því að framkvæma „learning by doing". Hann sagði að nemendur ættu að uppgötva sjálfir stig af stigi, finna orsök og afleiðingu því að nýjar uppgötvanir kalla á frekari athuganir. Hann lagði áherslu á samvinnu og að vinna í félagslegri heild þroskaði sjálfsvitund og skilning barns.

Jean Piaget lagði áherslu á vitsmunaþroska barna og leit á barnið sem rannsakanda sem öðlast þekkingu með persónulegri reynslu og eigin virkni.

Erik H.Erikson lagði áherslu á félags og tilfinningaþroska, áhrif umhverfisins og víxlverkun milli barns og fullorðins fólks.

Ingrid Pramling telur að barn hugsi og læri mun yngra en fólk hefur áður talið. Hún leggur áherslu á að þróa eigi reynsluheim barns og gera því ljós mismunandi fyrirbrigði og fyrirbæri í umheiminum. Hún segir að til þess að efla skilning barns á umhverfi sínu þurfi að hafa sjónarhorn þess að leiðarljósi.

Kamii og Devries halda því fram að til þess að áhugahvöt sé virk þurfi barni að líða vel og ábyrgð starfsmanna sé því mikil við að skipuleggja umhverfi sem veki með barninu öryggi, sé heillandi, örvandi og stuðli að vellíðan.

Edgar Willems skapaði aðferð við tónlistarkennslu sem byggist á því að taktur, laglína og samhljómur tengdist eðli manna líffræðilega, tilfinningalega og vitsmunalega.

Birgitta Knutsdotter Olofsson telur að þykjustuleikur hafi langmest gildi fyrir alhliða þroska barnsins. Hún kallar þykjustuleik barna „leik leikjanna" og henni er tíðrætt um „blessun" hans fyrir þau.

Caroline Pratt taldi að löngun barns til að læra væri meðfædd og að það lærði af leiknum. Hún áleit að nám þyrfti að hafa markmið sem væri hagnýtt fyrir barnið og að barnið skildi það.

Howard Gardner setti fram fjölgreindarkenninguna og lagði áherslu á að nýta ætti alla hæfileika mannsins. Hann segir að greindirnar séu átta og mögulegt sé að finnist fleiri. Greindirnar eiga sér stað á mismunandi stöðum í heilanum. Allir búa yfir þeim öllum að hans mati. Þær eru ekki óbreytanlegar og hægt er að þróa þær.