Velkomin í leikskólann okkar Hraunborg

Leikskólinn er þriggja deilda, hér dvelja 70 börn samtímis. Leikskólastjóri er Guðný Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri er Sigríður Fanney Pálsdóttir. Hún gegnir nú tímabundið stöðu deildarstjóra á Spóalandi.

Leikskólinn Hraunborg tók til starfa haustið 1984. Hann stendur við Hraunberg í Efra- Breiðholti í jaðri Elliðaárdals. Stutt er í skemmtilegar gönguleiðir og opin náttúrusvæði. Í Hraunborg dveljast samtímis sjötíu börn á aldrinum eins til sex ára. Skólastarfið hefst kl. 07:30 og því lýkur kl. 17:00. Boðið er upp á fjögurra til níu tíma vistun. Leikskólinn er rekinn af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, sem starfar samkvæmt lögum um leikskóla frá árinu 1994 og reglugerð við þau lög frá 1995.

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008) hefur verið unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstöðuatriði í þeirri vinnu er gerð aðalnámskrár fyrir skólastigin þrjú. Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum, skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu.

Leiðarljós skóla og frístundasviðs er að börnum og ungmennum í borginni líði vel, fari stöðugt fram og að þau öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf. Hlutverk sviðsins er að veita börnum og ungmennum bestu mögulegu tækifæri til leiks, menntunar og frístundastarfs í samvinnu við fjölskyldur og nærsamfélagið og að vera framsækið forystuafl í skóla- og frístundastarfi. Á skóla- og frístundasviði eru börn og ungmenni í brennidepli og öll þjónusta tekur mið af því.

Hlutverk leikskólans er að búa börn sem best undir það líf sem bíður þeirra í samfélagi sem tekur örum breytingum, samfélagi aukinnar tækni og framfara.

Einkunnarorð Hraunborgar eru: „Leikum og lærum".
Markmið Hraunborgar er: að hér starfi glaðir, virkir, ábyrgir, skapandi og gagnrýnir einstaklingar sem beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Hugmyndafræðin í Hraunborg byggist á lögum um leikskóla, Aðalnámskrá leikskóla og stefnu Leikskólasviðs Reykjavíkur. Við störfum í anda heildtækrar skólastefnu með því að koma til móts við þarfir einstaklingsins og gefa honum tækifæri til að vaxa og dafna á jafningjagrundvelli.