Fréttir frá Lóulandi

Vikufréttir

Ritað 02.10.2014.

Vikufréttir frá Lóulandi

Vetrarstarfið er að komast á skrið hjá okkur. Það er enn aðlögun í gangi, það bætist í hópinn okkar. Það voru sjö skemmtilegar ungar snótir sem komu frá Þrastalandi og vorum við mjög heppin að fá hana Irynu til okkar með þeim, verður hún hjá okkur í vetur.

Í hópa- og skólastarfi verða fjórir hópar í vetur:

          - Júlía verður með elstu börnin fædd 2009 og nefndu þau hópinn sinn Úlfahóp
          - Sigga verður með eldri börnin fædd 2010 og nefndu þau hópinn sinn Froskahóp
          - Eygló verður með yngri börnin fædd 2010, ásamt einu barni fætt 2011, og nefndu þau hópinn sinn                   Bangsímonhóp
          - Iryna verður með yngstu börnin fædd 2011 og nefnist sá hópur Kisuhópur

Við viljum biðja foreldra um að fara yfir óskilamunina sem eru hjá okkur, eru fyrir neðan upplýsingatöfluna. Einnig minna á að yfirfara töskur barnanna því það hefur kólnað í veðri og gott væri að börnin nauðsynlegan útifatnað, eins og hlýja vettlinga og húfur.

Nýtt ár - nýtt upphaf

Ritað 21.01.2014.

Nú er starfssemin komin í fullan gang aftur eftir hátíðarnar.  Fyrstu daga ársins var færðin ekki góð, mikil hálka var og erfitt um vik að vera úti með börnin. Eftir að við fórum að komast út í garðinn okkar vorum við úti í björtu svo auðveldara væri að sjá hvar hættu leyndust, nú síustu daga höfum við komist út tvisvar á dag á morgnana og í síðdeginun eins og dagskipulagið gerir ráð fyrir.

Undanfarið höfum við verið að fjalla um áramótin, veturinn, veðurfar og færð og síðan snerum við okkur að því að fara að undirbúa þorran í þessari viku. Fyrsti dagur í þorra er bóndadagur og ætlum við í tilefni hans að bjóða öllum pöbbum í morgunmat og kaffasopa á föstudaginn. Börnin eru að búa sér til þorrahatta sem notaðir verða í hádeginu á föstudaginn þegar við fögnum komu þorra með þorrablóti /þorramat.

Hauststarfið er byrjað

Ritað 24.09.2013.

IMG 7769Nú er fjör á Lóulandi hópastarfið er byrjað börnunum til mikillar gleði. Hópastarfið byrjar kl 09:00 og væri mjög gott barnanna vegna að þau væru kominn fyrir þann tíma. Útikennsla er hluti af hópastarfi og er það nýtt hjá okkur, hún er einu sinni í viku. Berglind er með skólahópinn (2008), Sigga Karítas (2009), Marta (2009) og Margrét með (2010).

Tveir nýjir starfsmenn  eru byrjaðir á Lóulandi það er Margrét  og Rebekka sem er stuðningur að hluta á deildinni. Öllum börnum í Reykjavík sem eru fædd árið 2008 er boðið á sögustund í Þjóðleikhúskjallaranum á sýninguna „Skrímslið litla systir mín" og munum við fara næsta föstudag. Hlökkum til að eiga gott samstarf.

                                                                                Kveðja starfólk Lóulands

Sumarfréttir

Ritað 03.07.2013.

IMG 76501Undanfarnar vikur hjá okkur á Lóulandi hafa verið annasamar og mjög skemmtilegar.

Föstudaginn 14. júní sáum við Brúðubílinn í Gerðubergi og skemmtum okkur rosalega vel.

Sumarhátíðin var hjá okkur miðvikudaginn 19. júlí. Við fengum tvo flotta hoppukastala, við skreyttum garðinn okkar, grilluðum pylsur í hádeginu og drukkum saft með. Þessi dagur var alveg hreint unaðslega skemmtilegur.

Föstudaginn 21. júní fengum við okkur göngutúr í Gerðuberg þar sem við sáum stórskemmtilega fuglasýningu. Þar voru ýmist pappírsfuglar, uppstoppaðir fuglar, fljúgandi ryksugufugl og fleira.

Börn fædd 2009 og 2010 á Lóulandi fóru í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn mánudaginn 24. júní með Eygló, Mörtu og Kolbrúnu. Við sáum fullt af allskonar dýrum, t.d. seli, kýr, hesta, kindur, geitur, kanínur, hænur, fjallarottur, hreindýr og fleiri. Við vorum svo einstaklega heppin að sjá þegar starfsfólk gaf selunum og litlu kópunum þeirra fisk að borða, það fannst krökkunum aldeilis spennandi. Þau nutu sín einstaklega vel í garðinum en leiðinlegast fannst þeim þó að fá ekki að halda á öllum dýrunum og knúsa þau. Krakkarnir voru rosa dugleg að ferðast með okkur í strætó og var þetta æðisleg ferð í alla staði.

Börn fædd 2007 og 2008 á Lóulandi fóru á Árbæjarsafnið þriðjudaginn 25. júní með Sigríði Karítas, Kolbrúnu og Ólöfu Jónu. Á safninu skoðuðum við búskaparhætti Reykvíkinga fyrr á tímum, og við komumst m.a. að því að þvagi var safnað saman í tunnu og þegar það þornaði var það notað sem sápa í hár og ull, og kallaðist það keita. Þetta fannst okkur mjög áhugavert. Þarna var einnig leikfangasafn þar máttum við leika okkur með leikföng frá því í gamla daga. Börnin skemmtu sér konunglega og þetta var yndislegur dagur.

Miðvikudaginn 26. júní hélt Kristín Lea upp á 6 ára afmælið sitt, en hún á afmæli 31. júlí en vildi halda afmæli fyrir okkur áður en hún hættir.

Í gær, þriðjudaginn 2. júlí, fórum við saman í göngutúr í Elliðaárdalinn, sem var yndislegt í góða veðrinu. Kirsten Helga og Herdís Hlín héldu svo kveðjupartý fyrir okkur seinni partinn því nú ætla þær á nýjan leikskóla. Við þökkum þeim innilega fyrir skemmtilegar og ánægjulegar stundir, við munum sakna ykkar rosalega mikið.

Í dag, miðvikudaginn 3. júlí, er búið að vera mikið fjör. Sólin tók aldeilis vel á móti okkur í morgunsárið og gladdi okkur með nærveru sinni í nánast allan dag. Börn fædd 2007 og 2008 sýndu tvö mjög skemmtileg leikrit fyrir konur og börn á Lóulandi og leikskólastjóra. Þau sýndu Rauðhettu og úlfinn og Geiturnar þrjár (sem voru reyndar fimm). Þau stóðu sig öll rosalega vel. 
Kristín Lea og Tinna Rögn héldu svo kveðjupartý fyrir okkur seinnipartinn því nú eru þær að fara í skóla í haust. Takk fyrir góðar stundir elsku stelpur, ykkar verður sárt saknað.

Jæja elsku foreldrar og börn, nú óskum við ykkur yndislegra stunda í sumarfríinu.
Við sjáumst hress og kát þegar leikskólinn opnar aftur, 1. ágúst. Smile

Kærar kveðjur, 
Lóukonur :) 

Heil og sæl

Ritað 31.05.2013.

Lóuland 10.05.2013 446 Nú er viðburðaríkum maí að ljúka. Við hættum í hópastarfi það hefst aftur í haust. Einnig höfðum við opið hús, myndlistasýningu í Hólagarði og útskrifaferð ásamt útskrif fyrir elstu börnin.

Undanfarið höfum við verið með val einu sinni til tvisvar á dag og meiri útiveru. Eldri hóparnir okkar fóru í gönguferð í vikunni en yngri hóparnir frestuðu sinni gönguferð fram í næstu viku vegna mikillar rigningar. Vonandi verður betra veður þá.   Rigningin gaf börnunum samt frábært og velþegið tækifæri til að drullumalla og í valinu fengum þau að leika sér með nýju  risalegókubbana okkar, það fannst þeim mjög skemmtilegt. Munið að koma með sólarvörn fyrir börnin og að vera búin að bera sólavörn á börnin áður en þau koma í skólann þá daga sem sólin skín.

Á mánudagin byrjar ný stúlka hjá okkur, hún heitir Embla Marín. Hún kemur í staðinn fyrir Gabríel sem hætti 13. maí.

Á þriðjudaginn 4. júní er sumarhátíð (skrúðganga og brúðubíll) í samstarfi við Hólaborg og Suðurborg. Foreldrar og systkini eru velkomin með  okkur, gott væri að vita hvort þið ætlið að koma með. Veðurspáin er ekki góð, við ætlum ekki að grilla og skreyta garðinn ef rignir heldur geyma það eitthvað fram í júní. Foreldrafélagið ætlar að bjóða okkur uppá hoppukastala 19. júní ef veðrið verður gott þá grillum við og skreytum garðinn.

Vikuna 10 - 14 júní ætlum við að hafa íþróttadaga sem kallaðir verða Leikskólahreysti. Þá förum við í leiki og þrautir ásamt því að æfa bolta-, hlaup- og stökktæknina okkar. Í lok vikunnar fá allir viðurkenningarskjal fyrir að hafa tekið þátt.  

Góða helgi - kær kveðja starfsmenn á Lóulandi