Fréttir

Ritað 22. Október 2014.

Sælt veri fólkið.

 

Síðasta vika var mjög viðburðarrík og skemmtileg. Helena frá Náttúruskólanum
fór með hópunum í útikennslu. 083 SmallÞó eiga Blái hópur og Þrastaland eftir að fara. Þetta var mjög skemmtilegt og fróðlegt. Hún kenndi okkur hvernig mætti útfæra leiki á ýmsa vegu í útikennslunni.


Slökkviliðið kom og heimsótti skólahóp. Það var farið yfir helstu atriði brunavarna og börnin sáu reykköfunarbúning. Mörgum leist ekkert á súrefnisgrímuna en það var enginn hræddur. Við fengum vesti fyrir þá sem sinni eftirliti og möppu þar sem börnin í skólahóp munu skiptast á að fara í eftirlitsferðir með kennara í leikskólanum. Við munum athuga hvort útgönguljósin séu í lagi, hvort eldvarnarhurðir virki og margt fleira. Eftir að börnin fengu að skoða brunabílinn úti á bílastæðinu þá fengu þau öll litabók, liti og möppu til að taka með sér heim og fara yfir brunavarnir heimilisins.

Bleiki dagurinn fór ekki fram hjá neinum sem mættu í leikskólann. Margir voru mjög hugmyndaríkir í útfærslu á bleika litnum. Bleik gleraugu, klútar, hárbönd og spennur voru meðal þeirra hluta sem börnin notuðu og skiptir engu hvort um dreng eða stúlku var að ræða.

Þann 28. Október fara fram foreldraviðtöl fyrir foreldra nýju barnanna á Spóalandi. Það eru foreldrar barnanna sem voru á Þrastalandi og þau sem eru að koma af öðrum leikskólum. Það verður farið yfir aðlögunina, hópastarf og dagskipulag svo eitthvað sé nefnt.

 

115 SmallDagbjört Ásgeirsdóttir kom og las fyrir öll börnin á Spóalandi og Lóulandi og Þrastalandi, börnunum var aldurskipt og blandað á milli deilda. Gummi fer á veiðar, Dvergurinn úrilli og Gummi fer í fjöruferð eru þær bækur sem hún hefur nýverið gefið út. Hún las úr þeim og um leið taka þátt í lestrarátaki Reykjavíkurborgar. Við höfðum mjög gaman af þessu enda líka eru góðar bækur og skemmtilegur lestur gulls ígildi.