Fréttir frá Spóalandi

Aðlögun að mestu lokið og starfið komið í fullan gang.

Ritað 18.09.2014.

Spóaland 055Sælt veri fólkið.


Við á Spóalandi kvöddum prúðan hóp af börnum í vor sem voru að hefja grunnskólagöngu sína í haust. Við óskum þeim velfarnaðar og þökk fyrir samveruna. Nú hafa börnin frá Þrastalandi sem byrjuðu hjá okkur aðlagast vel og við bjóðum þau hjartanlega velkomin.


Við erum komin á fullt í hópastarfið. Verkefnin eru mörg og spennandi. Við byrjuðum á að fjalla um vináttuna og erum komin í mikla umfjöllun, könnun og verkefnavinnu í sambandi við haustið í þema vinnu.
Skólahópurinn fékk boð um að koma í sögustund í Þjóðleikhúskjallarann í gær. Þar var Bernd Ogrodnik með brúðurnar sínar og sýndi okkur verkið „Brúðukistuna". Bæði börn og starfsfólk höfðu mjög gaman af þessari sýningu.


Foreldrafundur verður á þriðjudaginn 23. September klukkan 8:15-9:00 í salnum okkar fyrir foreldra barna á Spóalandi. Þar verður vetrarstarfið kynnt og nýjungar í starfinu með börnunum. Við hvetjum alla foreldra og forráðamenn til að koma.


Við viljum minna alla á að yfirfara töskur reglulega og hafa nóg af aukafatnaði vegna vætutíðar sem engan enda ætlar að taka.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Ritað 20.01.2014.

Nýtt ár er gengið í garð þá óska ykkur gleðilegs árs og þökk fyrir það gamla. Gamla árið var viðburðarríkt en vegna tæknilegra örðugleika og vankunnáttu á heimasíðu deildarstjóra þá var fréttum ekki deilt með ykkur eins og ætti að vera og biðst undirrituð afsökunar á því.

jan 2014 Spóaland 100


Starf og leikur gekk mjög vel á Spóalandi í haust og vetur. Það var farin ferð í Fella- og Hólakirkju og börnin hengdu upp jólaskraut á jólatréið, haldið jólaball í leikskólanum þar sem Stekkjastaur kom og færði börnunum gjafir og sýndi töfrabrögð. Einnig fóru börnin í skólahóp á Spóa og Lóulandi í sérferð í Fella- og Hólakirkju til að syngja jólasálma fyrir aldraða. Þau voru til fyrirmyndar og sungu eins og englar.  Einnig fór skólahópur að skoða Árbæjarsafn fyrir jólin en ferðin var bæði fróðleg og skemmtileg.

 


Veðrið yfir áramótin hefur verið okkur til trafala og hefur útivera verið af skornum skammti. Hálka á lóðinni hefur einnig valdið því að ekki hefur verið stætt í garðinum og höfum við reynt að bæta það upp með göngutúrum en sandur er borinn á göngustígana hér allt um kring.


Með hækkandi sól, vor í lofti, miklum klaka og bráðnandi snjó munum við auka útiveruna og minni ég á nauðsyn þess að vera með góð hlífðarföt og aukaföt í töskum.


Nú er starfið að komast á fullt aftur. Við munum halda þorrablót á Bóndadaginn föstudaginn 24. janúar 2014 þar sem við byrjum daginn með að bjóða feðrum barnanna í Pabbakaffi. (Sjá nánar auglýsingu í fataklefa). Leikskólinn lokar sumarið 2014 vegna sumarleyfa miðvikudaginn 9. júlí til og með miðvikudeginum 6. ágúst. Leikskólinn opnar 7. ágúst 2014. (sjá auglýsingu í fataklefa).


Kaja kvaddi okkur í desember en hún var í Rauða hópnum. Við þökkum henni kærlega fyrir samveruna og óskum henni bjartrar framtíðar og velgengni. Daria Barbara byrjaði hjá okkur núna í janúar og bjóðum við hana hjartanlega velkomna á Spóaland. Hún fer í Rauða hóp.


Við í skólahóp ætlum að bæta við okkur verkefni því við erum langt komin með" Kátt er í Kynjadal" og „Lubbi finnur málbein" . Við ætlum að taka inn Stig af stigi sem hjálpar börnunum að ná góðum tökum á tilverunni.

Kveðja starfsmenn á Spóalandi

Allt komið í gang

Ritað 23.09.2013.

Loksins, loksins er allt komið í gang á Spóalandi eftir sumarfríið. Ég(kitta) og Oksana höfum fengið frábærar móttökur frá börnum, foreldrum, aðstandendum og starfsfólki Hraunborgar. Ég er að leysa Öldu af á meðan hún er í fæðingarorlofi.

Spóaland sep 2013 144
Vetrarstarfið er hafið á fullu og erum við búnar að skipta börnunum í fjóra hópa, gula, rauða, græna og bláa. Ég og Oksana erum með skólahópinn sem er Guli hópurinn (2008). Sigríður J er með Rauða hópinn (2009), Fjolla með Græna hópinn (2009) og Jóhanna svo með Bláa hópinn (2010) eða yngstu börnin á deildinni.

Öllum börnum í Reykjavík sem eru fædd árið 2008 er boðið á sögustund í Þjóðleikhúskjallaranum á sýninguna „Skrímslið litla systir mín" og munum við fara næsta föstudag.
Hlökkum til að eiga gott samstarf.

Kveðja starfsfólk Spóalands.

Sumar

Ritað 03.07.2013.

                                                                                                                       Heil og sæl öll sömul.

DSC01330Nú er alveg að koma að kærkomnu sumarfríi okkur langar að segja ykkur aðeins frá starfinu okkar undanfarin mánuð. Mikil útivera hefur verið, þó veðrið hefði getað verið betra. Íþróttavikan okkar var 10. til 14. júní í henni  kynntust börnin alls kyns íþróttum. Við sáum brúðubílinn það var  gaman og héldum sumarhátíðina okkar þar sem hoppukastalar komu í garðinn í boði foreldra, grillaðar voru pylsur og borðað úti. Farið var í  ferðir með börnin, börn fædd 2008 fóru í Árbæjarsafnið og börn fædd 2009 og 2010 fóru í Fjölskyldu og húsdýragarðinn.

Í júní voru líka fullt af afmælum þar sem þó nokkrir ísar voru borðaðir.

Auðunn og Karítas eru að kveðja okkur og halda á vit ævintýra í nýjum leikskólum annað fer í Mosfellsbæ og hitt í Kópavog. Svo er það með söknuði sem við kveðjum tvo starfsmenn þau Ólöfu Jónu og Steinar Þór. Þau halda einnig á vit nýrra ævintýra, Ólöf Jóna í háskólanám og Steinar Þór þykist geta fengið betri vinnu.

Gleðilegt sumar og hafið það notalegt í sumarfríinu.  Hlökkum til að sjá ykkur aftur í ágústSmile

Sumarkveðja starfsmenn á Spóalandi

Sumarbyrjun

Ritað 31.05.2013.

 

sunny.gifHeil og sæl öll sömul

Full langt er liðið síðan síðast var bloggað vegna þess að síðan hefur legið niðri, en nú ætlum við að byrja á fullum krafti. Maí-mánuðurinn hefur gengið vel, eins og flestir vita þá er hópastarfið komið í sumarfrí og byrjar það aftur í haust. Í staðinn erum við með leikjaval. Við erum búin að vera ansi dugleg að fara í göngutúra  og ætlum að halda því áfram og vera mun duglegri. Svo er hún Leeane okkar að hætta í dag og á mánudaginn mun ný stúlka byrja, hún heitir Alexandra Ósk.

Vikuna 10 - 14 júní ætlum við að hafa íþróttadaga sem kallaðir verða Leikskólahreysti. Þá förum við í leiki og þrautir ásamt því að æfa bolta-, hlaup- og stökktæknina okkar. Í lok vikunnar fá allir viðurkenningarskjal fyrir að hafa tekið þátt.

Og að lokum ætla ég að setja eitt létt og gott gullkorn.

Hún Karítas sagði við Fjollu starfsmann. Fjolla guð er að gráta og Fjolla sagði ha af hverju segirðu það. Þá sagði Karítas út af því að það er rigning úti :)

            Góða helgi og sjáumst hress á mánudaginn.