Þrastaland

Leikurinn er kennslutæki okkar í leikskóla og á honum grundvallast allt starf skólans. Hann má flokka í fjóra aðalflokka, (skynfæra og hreyfileik, sköpunar og byggingaleik, hlutverka og ímyndunarleik og regluleik) eftir inntaki leikjanna  og uppeldis og mennt-unargildi þeirra. Margir leikir eru fjölþættir og geta flokkast undir fleiri en einn flokk. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns.

Barn þarf tíma til að skipuleggja og setja upp leik og það þarf samfelldan tíma til að þróa leik sinn og dýpka. Þess vegna er leiknum ætlaður góður samfelldur tími í dagskipu-laginu. Við leggjum áherslu á að barn sé ávallt í návist starfsmanns í leik sínum en ekki eftirlitslaust. Starfsmaður er til staðar til að örva leikinn, grípa inn í, leiðbeina, veita öryggi og taka þátt í leiknum, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Könnunarleikur sem notaður er á Þrastalandi
Í leiknum er  mest notað verðlaust efni s.s, dósir, dollur, keðjur, lyklar og fleira.

Í hverjum hópi eru fjögur til sex börn og einn starfsmaður sem skráir leikinn á þar til gerð eyðublöð. Hann er ekki virkur þátttakandi í leiknum. Hver stund er áætluð í u.þ.b. 45 mín. og hvert barn fer einu sinni í viku í könnunarleik. Starfsmaðurinn setur upp leikefnið og aðstoðar við tiltekt. Lögð er áhersla á að börnin fá að vinna frjálst með efniviðinn og leika sér á sínum forsendum án fyrirmæla frá starfsmanninum. Að taka saman efniviðinn er stór  hluti af leiknum. Starfsmaðurinn tekur þátt í henni með því að nota leiðbeinandi hugtök s.s fyrir framan og aftan, stór og lítill.