Starfið hafið að nýju

Ritað 18.09.2017.

BókstafirKomið þið sæl
Nú er starfið komið í gang aftur eftir sumarfrí. Aðlögun milli deilda er lokið og gekk hún nokkuð vel börnin sem koma frá Þrastalandi eru að fá mikið af nýjum tilboðum sem þeim finnst mjög spennandi. Þau vildu helst prófa allt í einu en það reyndist þeim nú erfitt. Eldri börnin á deildunum voru einnig að færast í nýja hópa og nýja hvíld svo allir eru að venjast nýjungum þessa dagana.
Því miður erum við í þeirri stöðu að hafa ekki getað tekið inn öll börnin sem voru búin að fá boð um vist hjá okkur en við vonum að það takist innan tíðar.

Breytingar hafa orðið í starfsmannahópnum Ásgerður Alda Friðbjarnardóttir kvaddi okkur í ágúst Brynja Ýr Baugsdóttir tók við deildarstjórn í hennar stað. Bryndís Óðinsdóttir fór til starfa á Spóaland og í hennar stað kom Sylvía Grétarsdóttir á Lóuland. Svala Birna Sæbjörnsdóttir fór til starfa á Spóalandi í hennar stað kom Hrefna Hrund Erlingsdóttir sem verið hafði í sérkennslu. Alexandra Ásta, Vigdís og Helga eru allar farnar í skóla, Alexandra Ásta kemur til okkar af og til í vetur en hinar koma að öllum líkindum ekkert fyrr en næsta vor.  Í þessari viku kemur nýr starfsmaður til starfa á Þrastaland hún heitir Tanja Alexandra Larsen.

Í sumar voru settir bókstafir á útisvæðið okkar og rauð lína sem má hjóla að, rauða línan er strax farin að bila en stafirnir virðast standast álagið. Við munum reyna að fá nýja rauða línu til að auðvelt sé að kenna þeim hvert má hjóla.

Sumarkveðja

Ritað 11.07.2017.

Júlí 2017 003 SmallNú er komið að sumarlokun hér í leikskólanum okkar og munum við opna leikskólann aftur fimmtudaginn 10.ágúst.

Það er mikið búið að bralla hér síðustu daga, börnin hafa farið í vettvangsferðir og í dag settum við út nokkra bala með vatni í og börnin voru berfætt að sulla og leika sér í sandkassanum. Nokkur börn kvöddu okkur í dag og buðu börnunum hér í leikskólanum upp á ís í tilefni af þessum tímamótum.

Við óskum ykkur öllum góðs sumarfrís og hlökkum til að sjá ykkur hress og kát í ágúst.

Bókaormur

Ritað 20.06.2017.

bokaormur1Kæru foreldrar og forráðamenn

Í síðustu viku lauk lestrarátakinu okkar hér í Hraunborg og það er vægt til orða tekið þegar sagt er að þið stóðuð ykkur meiriháttar vel, húrra fyrir ykkur öllum. Ormurinn okkar er svo stór að það var orðið erfitt að finna pláss fyrir hann :-)

Gleðin og hamingjan sem skein úr andlitum barnanna þegar þau mættu á morgnana og settu sinn hring í orminn var ósvikin og ekki skemmdi fyrir að fá að fylgjast með orminum vaxa og dafna.

Margir hefðu viljað hafa þetta átak lengra en við ætlum að segja staðar numið í þetta skiptið en við munum pottþétt fara af stað með þetta átak aftur á haustmánuðum.

Takk allir saman fyrir frábæra samvinnu.